Hávær umræða hefur verið undanfarin ár um að nauðsynlegt sé að setja skorður á leiguverð, þak á fjárhæð leigu eða einhvers konar "leigubremsu. Samkvæmt lögum til breytinga á húsaleigulögum er nú hægt að bera undir kærunefnd húsamála hvort húsaleiga - eða hækkun leigu - sé sanngjörn. Breytingin var samþykkt á Alþingi 16. desember sl.
Ekki þykir líklegt að þessi breyting komi til með að stemma hækkun á leiguverði af en það verður áhugavert að sjá hvað kemur til kasta kærunefndarinnar og hvernig hún mun taka á því. Líklegast er þó að kærunefndin muni einungis beita sér ef um mjög óeðlilega hækkun leiguverðs er að ræða. Ekki getur talist mjög raunhæft eða líklegt að fólk geri leigusamning og rjúki svo beint til að kæra um leiguverðið.. eða hvað?
Í húsaleigulögum er nú þegar að finna ákvæði um að leiganda og leigusala sé frjálst að semja um húsaleigu en að hún skuli vera sanngjörn og eðlileg. Hvað nákvæmlega geti talist "sanngjarnt" og "eðlilegt" hefur ekki beint legið fyrir hingað til og engin viðmið um það að finna í lögunum. Með þessari breytingu á lögunum er nú kominn vísir að slíku viðmiði; nú skal líta til markaðsleigu sambærilegs húsnæðis og almenns húsnæðiskostnaðar; staðsetningu, gerðar og ástands húsnæðis og; endurbóta, breytinga og viðhalds þess og hvort það hafi verið framkvæmt af hálfu eiganda eða leigjanda.
Kærunefndin getur þannig ákveðið að leigufjárhæð sé ósanngjörn og að endurgreiða skuli ofgreidda leigu samkvæmt þessu mati - eða draga "skuld" leigusalans frá framtíðarleigugreiðslum leigjanda.
Við skulum vona að kærunefndin sé nú þegar byrjuð að auglýsa eftir fleira starfsfólki...
Sú breyting var einnig gerð á lögunum að þeir leigusalar sem hafa atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis, þ.e. leigja út fleiri en tvær íbúðir skulu nú skrá alla leigusamninga í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Upphaflega átti þetta að gilda um alla leigusamninga en ákvæðinu var breytt í meðförum þingsins.
Leigusamninga skal skrá innan 30 daga frá undirritun samnings. Hafi samningur ekki verið skráður við afhendingu húsnæðis er leigjanda sjálfum heimilt að skrá samninginn í húsnæðisgrunninn. Ef leiguverð breytist á samningstíma skal leigusali einnig skrá það innan 30 daga.
Hér er hægt að skrá leigusamning á leiguskrá í húsnæðisgrunni Húsnæðis - og mannvirkjastofnunar.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verður frá 1. janúar 2024 heimilt að sekta þá leigusala sem ekki skrá leigusamninga í húsnæðisgrunninn við útleigu húsnæðis. Slíkar stjórnvaldssektir geta numið frá 10.000 kr. til 1.000.000 kr. eftir fjárhag viðkomandi leigusala.
Comments